Kertaframleiðslan

Kertaframleiðslan

Þegar ég opnaði HEIMARÓ var alltaf ofarlega á lista að selja kerti. Ég er mjög mikil kertakona, hef það frá mömmu minni, og hef keypt aragrúa af ilmkertum í gegnum tíðina.

Kertin hafa verið misgóð, þau hafa verið að endast misvel, lyktin stundum of sterk og stundum of veik osfrv. Hins vegar vissi ég ekki að kertin sem ég var að kaupa voru nánast öll gerð úr paraffín vaxi. Sú vaxtegund er vinsælust og má finna í flestum seldum ilmkertum en er unnin úr steinolíu eða kolum og er ekki góð að anda að sér. Því hefur verið líkt við óbeinar reykingar að anda að sér reyk frá paraffín ilmkertum þar sem eiturgufur leysast út við brennslu kertanna. Það virðist sem framleiðendur kertana gleymi að viðskiptavinir þeirra munu óhjákvæmilega anda að sér því sem kertið brennur.

Þar að auki sóta slík kerti töluvert meira en loftið heima hjá mér var þakið dökkum blettum í hornum vegna sóts frá kertunum (já ég sagði það og meina það - ég elska að kveikja á kertum). Sojavax hins vegar brennur á lægri hita en aðrar vaxtegundir og sóta nánast ekkert. Þar að auki er vaxið vegan (það er unnið frá olíu úr sojabaunum), það brennur töluvert hægar og er 100% niðurbrjótanlegt. 

Vegna þessa kom ekki annað til greina en að velja sojavax, það skipti mig gríðarlegu máli að vinna kertin mín rétt frá upphafi.

Ég vildi sjá um framleiðsluna sjálf frá A-Ö, þá meina ég að blanda lyktinni, kaupa hreint vax og sjá til þess að engin aukaefni væru sett í kertin. Þar að auki vildi ég bjóða uppá öðruvísi umbúðir. Samkeppnin í kertasölu er mjög mikil og ég vildi að kertin mín væru öðruvísi en önnur. Ég fann framleiðanda sem gat steypt vel valin orð í krukkurnar sem gera þær að ennþá skemmtilegri gjöf að gefa. Kertakrukkurnar eru steyptar, þær eru þungar og veglegar og auðvelt er að nota þær áfram eftir að kertið hefur brunnið niður. 

Nokkur ráð sem gott er að hafa í huga þegar kveikt er á RÓ kerti:

- Stytta kertakveikinn áður en kveikt er á kertinu
- Brjóta af sót sem situr efst á kveiknum frá síðustu notkun
- Setja lokið á þegar búið er að slökkva til þess að koma í veg fyrir sótun

Ég geri hvert einstaka kerti sjálf í höndunum, ég er gríðarlega stolt af framleiðslunni okkar og ilmurinn af kertunum er dásamlegur.